Gunnar verður Blábankastjóri

Stjórn Blábankans hefur ráðið Gunnar Ólafsson sem næsta bankastjóra Blábankans á Þingeyri.

Gunnar hefur mikla reynslu af nýsköpun og samfélagsmálum á Vestfjörðum. Undanfarin ár hefur hann rekið Djúpið, samfélags- og nýsköpunarmiðstöð í Bolungarvík, auk þess að hafa komið á laggirnar fjölmörgum sprotaverkefnum og tekið virkan þátt í þróun nýsköpunar á landsbyggðinni. Gunnar býr ásamt fjölskyldu sinni í Bolungarvík. 

„Ég geng spenntur til liðs við þann góða hóp sem að Blábankanum stendur. Við sjáum sömu möguleika, sömu tækifæri í áskorunum og munum halda áfram því glæsilega brautryðjendastarfi sem hefur verið unnið fram að þessu. Reynsla mín mun vonandi nýtast og aukast í jöfnum hlutföllum við úrlausn þeirra verkefna sem fyrir liggja. Ég gleðst yfir því trausti sem mér er sýnt og hlakka til að taka þetta verkefni lengra.“

Ketill Berg Magnússon er stjórnarformaður Blábankans:

„Við í Blábankanum erum afar lukkuleg með að hafa nælt í Gunnar. Hann hefur óvenjumikla reynslu af nýsköpun, er kröftugur og á afar auðvelt með að fá fólk með sér til til að hugsa út fyrir boxið. Blábankinn er fyrirmynd nýsköpunar á landsbyggðinni og við viljum með nýrri stefnumótun verða suðupottur sköpunar á Vestfjörðum. Við erum viss um að Gunnar mun efla Blábankann sem heimavöll skapandi Vestfirðinga og óskastað skapandi gesta.“

Gunnar tekur við af Birtu Bjargardóttur sem verið hefur Blábankastjóri frá 2021 en hverfur til annarra starfa 1. september.

Blábankinn á Þingeyri er sjálfseignarstofnun sem stofnuð var árið 2017 þegar Landsbankinn hætti starfsemi á Þingeyri og bauð húsnæðið til starfseminnar. Stofnaðilar voru einkaaðilar, Ísafjarðarbær og sveitarstjórnarráðuneytið. Fjármögnun Blábankans út árið 2024 var tryggð með samningum við Arctic Fish, Ísafjarðarbæ og Innviðaráðuneytið.  

Hlutverk Blábankans er að bjóða umgjörð fyrir sköpun á Vestfjörðum, með fjölbreytt atvinnulíf, sjálfbærni og lífsgæði að leiðarljósi. 

Nánari upplýsingar veitir Ketill Berg Magnússon (ketill@gmail.com - sími 8984989).

Previous
Previous

Vinnustofur “Project EUROPE” í Blábankanum.

Next
Next

Heimsækjum Þingeyri 2023