Blábankinn 5 ára!
Blábankinn á Þingeyri fagnar 5 ára afmæli í dag en hann var stofnaður 20. september 2017.
Blábankinn er enginn venjulegur banki heldur nýsköpunar- og samfélagsmiðstöð þar sem fólk í heimabyggð og víðar getur sótt þjónustu, haft vinnuaðstöðu og aukið þekkingu sína til að auðga atvinnu- og mannlífið í Dýrafirði og nágrenni.
Nafnið fékk Blábankinn m.a. vegna þess að hann er til húsa í gamla Landsbankahúsinu á Þingeyri sem málað hefur verið blátt. Reyndar sinnir Landsbankinn enn bankaþjónustu í húsinu nokkra klukkutíma í viku en að öðru leyti hýsir Blábankinn samvinnurými þar sem haldnir eru viðburðir og vinnustofur og hið árlega Startup Westfjords, nýsköpunarhemil sem einmitt hefst næstu helgi.
Þá styður Blábankinn við íslenskt og erlent athafnafólk með verkefninu Arctic Digital Nomads en „stafrænn flakkari“ er lífsstíll sem verður æ vinsælli, til lengri og skemmri tíma, og þá sækja ekki allir í sól og hita því mörg sýna því mikinn áhuga að dvelja í Dýrafirði við störf sín og njóta stórbrotinnar náttúrunnar þar í leiðinni.
Auk þess sinnir Blábankinn stafrænni aðstoð við íbúa, þ.e. dagleg notkun tölvu- og snjalltækja, notkun samfélagsmiðla og samskipti við opinberar stofnanir, og er samstarfsaðili við Bókasafnið á Ísafirði.
Blábankinn sinnir því mörgum og mismunandi hlutverkum til að vega upp á móti minnkandi þjónustu stærri aðila við smærri sveitarfélög. Hugmyndin þótti nokkuð djörf á sínum tíma en eftir 5 ára reynslu hefur Blábankinn sannað sig og getur hreykt sér af aðkomu að ýmsum spennandi sprotaverkefnum, bæði í nærsveitinni og víðar.