Spennandi tímar framundan

irisindridadottir.png

Við kynnum með stolti splunkunýja heimasíðu Blábankans. Hér á síðunni verður hægt að finna allar helstu upplýsingar um Blábankann, samvinnurými, verkefni, Þingeyri og fylgjast með fréttum. Rubén Chumillas er grafískur hönnuður og starfsnemi hjá Blábankanum síðast liðin tvo ár, Rubén á heiður á hönnun heimasíðunnar. Í samstarfi við Rubén sá Jóhann Ingi Skúlason um uppsetningu og forritun á síðunni. Við þökkum Rubén og Jóhanni kærlega fyrir samstarfið.

Starfið í Blábankanum leggst oft á tíðum í einskonar dvala á sumrin en í ár er þó nokkuð að frétta. Stjórn Blábankans hefur ráðið Írisi Indriðadóttur sem verkefnastjóra Blábankans fyrir verkefnið Startup Westfjords.

Íris er menntaður vöruhönnuður frá Listaháskóla Íslands og stundar nú meistaranám við Háskóla Íslands í umhverfis- og auðlindafræði. Íris hefur reynslu af verkefnastjórnun en hún vann sem verkefna- og viðburðarstjóri hjá Menningarstofu Fjarðabyggðar og hefur unnið ýmis verkefni fyrir Reykjavíkurborg tengd listum og hönnun fyrir m.a. Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar og Torg í biðstöðu. Einnig er Íris myndlistarkennari við Myndlistaskóla Reykjavíkur og vinnur þar á milli sem sjálfstætt starfandi hönnuður.

Í sumar mun Íris vinna að því að koma Startup Westfjords Nýsköpunarhemil á laggirnar ásamt því að sinna ýmsum verkefnum fyrir Blábankann.

Þema Startup Westfjords 2021 er Framtíðarlifnaðarhættir

Nýsköpunarhemill Blábankans, Startup Westfjords, verður haldinn vikuna 5.-12. september. Þemað í ár er framtíðarlifnaðarhættir. Í nútímanum stöndum við frammi fyrir breytingum eins og aukinni tækniþróun, fólksfjölgun og loftlagsvá sem munu hafa áhrif á lifnaðarhætti okkar. Slíkar breytingar bjóða upp á margskonar áskoranir og því mikilvægt að horfa til langtímamarkmiða og jafnvel endurhugsa viðtekin gildi og viðmið. Við leitum að fjölbreyttum og skapandi hugmyndum tengdum lifnaðarháttum með framtíðarsýn að leiðarljósi. Eins og áður leggur Startup Westfjords áherslu á að hægja á sér, staldra við og leyfa hugmyndum að blómstra og þróast á fallegu Þingeyri. 

 

Hægt verður að fylgjast með Blábankanum og Startup Westfjords í sumar hér á heimasíðunni en einnig á bæði instagram @blabankinn og á facebook www.facebook.com/blabankinn. Það er spennandi sumar framundan hjá Blábankanum, frekari upplýsinar um Startup Westfjords verða birtar á næstu dögum.

Previous
Previous

Blábankinn auglýsir eftir bankastjóra