Frábær vinnustofa í Blábankanum með Gunnari Thorberg

Gunnar Thorberg með hugarflugsfund í Blábankanum.

Í byrjun janúar fór fram vinnustofa í Blábankanum með Gunnari Thorberg um sameiginlega markaðssetningu á Þingeyri fyrir sumarið 2022.

Gunnar er varaformaður í stjórn Blábankans og sérfræðingur í markaðssetningu. Hann er stofnandi og eigandi markaðsfyrirtækisins Kapals og hefur mikla reynslu af markaðsstarfi fyrir áfangastaði, s.s. fyrir Siglufjörð, Eyjafjarðarsveit og Vestfirði.

Þátttakendur í vinnustofunni í Blábankanum voru aðilar á svæðinu og aðrir hagsmunaaðilar sem bjóða upp á eða hyggjast bjóða upp á þjónustu til ferðamanna á Þingeyri.

Markmið vinnustofunnar var að móta heildstæða markaðsstefnu um áfangastaðinn Þingeyri og hvernig hægt væri að styrkja ímynd bæjarins, í sátt við alla hagsmunaaðila.

Margar frábærar hugmyndir komu út úr vinnustofunni og er nú þegar margt í bígerð.

Óhætt er að segja að það sé spennandi sumar framundan í þorpinu og búið er að ákveða að vinna í sameiningu að viðburðadagskrá fyrir sumarið 2022.

Tímabilið 20. júní til 7. ágúst mun eitthvað vera á dagskrá á Þingeyri hvern einasta dag. Má þar nefna sögugöngu um þorpið, lifandi handverk í Koltru, fastan opnunartíma í Grásteinsgallerí, barnastund í sundlauginni, uppákomur í Víkingasetrinu, kayakferðir, fjölskyldujóga og margt fleira.

Nánari dagskrá verður kynnt bráðlega og hægt verður að fylgjast með dagskrá allra viðburða á vef Markaðsstofu Vestfjarða.

Previous
Previous

Spennandi páskar á Þingeyri og í Dýrafirði

Next
Next

Þátttakendur á Startup Westfjords 2021: rasley