Birta bankastjóri

Stjórn Blábankans hefur ráðið Birtu Bjargardóttur sem næsta bankastjóra Blábankans á Þingeyri. 

Birta hefur fjölbreytta reynslu af verkefnastjórnun, viðburðastjórnun og upplýsingamiðlun. Hún hefur meðal annars starfað með umhverfissamtökum, sem forstöðumaður upplýsingadeildar hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, sérfræðingur hjá Warner Bros í London, markþjálfi, sérfræðingur fyrir Breska utanríkisráðuneytið og hefur stofnað og rekið eigið fyrirtæki á sviði heilsumarkþjálfunar. Birta er með BSc gráðu í dýrafræði og mastersgráðu í vísinda- og menningarmiðlun.

"Ég er afskaplega ánægð að hafa verið ráðin bankastjóri Blábankans og er virkilega spennt fyrir starfinu! Blábankinn er frábær vettvangur fyrir nýsköpun og sjálfbærni og ég hlakka til að þróa starf Blábankans áfram og sjá það blómstra enn frekar. Þetta er spurning um samstarf og samtal og eitt það fyrsta sem ég stefni á að gera er að hitta sem flesta á svæðinu - og læra nöfn allra íbúa Þingeyrar fyrir jól!" Segir Birta.


Ketill Berg Magnússon er stjórnarformaður Blábankans:

“Það er mikill fengur fyrir okkur að fá Birtu til að stýra Blábankanum og fylgja eftir því góða starfi sem þar hefur verið unnið. Blábankinn er nú þegar orðinn fyrirmynd fyrir samfélags- og nýsköpunarmiðstöðvar annars staðar á landinu og það hefur sýnt sig að samstarf ríkis, sveitarfélags og einkaaðila virkar vel í svona starfi. Við viljum vaxa enn frekar og bjóðum hugmyndaríku fólki að koma til Þingeyrar.”


Blábankinn á Þingeyri er sjálfseignarstofnun sem stofnuð var árið 2017 þegar Landsbankinn hætti starfsemi á Þingeyri og bauð húsnæðið til starfseminnar. Stofnaðilar voru einkaaðilar, Ísafjarðarbær og sveitarstjórnarráðuneytið. Nýlega var fjármögnun Blábankans út árið 2024 tryggð með samningum við Arctic Fish, Ísafjarðarbæ og Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.  

Markmið Blábankans er að skapa alþjóðlegan vettvang fyrir nýsköpun og sjálfbærni og auka lífsgæði fólks á Þingeyri. 

Nánari upplýsingar veitir Ketill Berg Magnússon (ketill@gmail.com - sími 8984989)


Previous
Previous

Vel heppnaður nýsköpunarhemill 2021

Next
Next

Leiðbeinendur Startup Westfjords