Vel heppnaður nýsköpunarhemill 2021

Þátttakendur Startup Westfjords 2021 í verkefnasköpun í Blábankanum.

Startup Westfjords 2021 var haldinn í fjórða sinn í Blábankanum á Þingeyri í byrjun september. 

Startup Westfjords er eins konar vinnustofa þar sem frumkvöðlar og hugmyndasmiðir koma saman í eina viku með hugmyndir sínar á borðið, en megin markmiðið er að teygja og beygja hugmyndir í átt að sjálfbærni, framtíðinni og uppbyggjandi samfélagi. 

Ólíkt nýsköpunar„hraðli“ veitir „hemillinn“ þátttakendum rými til að vinna, hugsa og einbeita sér langt frá hröðum takti hversdagsins. Hemillinn leyfir verkefninu að blómstra á eigin hraða.

Þema hemilsins í ár var framtíðarlifnaðarhættir. Í nútímanum stöndum við frammi fyrir breytingum eins og aukinni tækniþróun, fólksfjölgun og loftlagsvá sem munu hafa áhrif á lifnaðarhætti okkar. Slíkar breytingar bjóða upp á margskonar áskoranir og því mikilvægt að horfa til langtímamarkmiða og jafnvel endurhugsa viðtekin gildi og viðmið.

Eiginleg dagskrá var í formi fyrirlestra og umræðna með leiðbeinendum fyrir hádegi, en svo var frekar opin dagskrá með frjálsum tíma til að leyfa huganum og hugmyndunum að flæða. Hugarflugsfundir, núvitundaræfingar, sjósund, berjamó, umræður við varðeld á víkingasvæðinu, bátsferð, karaókíkvöld og margt fleira var í boði. 

Í september 2021 voru 10 teymi valin til að taka þátt. Verkefni voru margs konar, þ.á m. samfélagsgrænmetisræktun, endurnýting á rafmagnssnúrum í hversdagslega hluti, náttúran og sýndarveruleiki, og umhverfisvæn endurhönnun á heimilistækjum og -munum.

Startup Westfjords er fjármagnað af Blábankanum og styrktaraðilar í gegnum tíðina hafa m.a. verið 66°Norður, Arctic Fish, Kerecis, KPMG, Vestfjarðastofa og Öll vötn til Dýrafjarðar.

Stefnt er að því að halda næsta Startup Westfjords í maí 2022 og við hvetjum áhugasama til að sækja um. Nánari upplýsingar þegar nær dregur - fylgist með á vefnum hjá okkur og Instagram og Facebook.

Previous
Previous

Þátttakendur á Startup Westfjords 2021: Leiry Seron

Next
Next

Birta bankastjóri