Leiðbeinendur Startup Westfjords
Startup Westfjords kynnir með stolti þá fjölbreyttu og glæsilegu leiðbeinendur sem flytja fyrirlestra og verða með ráðgjöf þetta árið. Lykilþema vinnustofunnar í ár er framtíðarlifnaðarhættir, en leiðbeinendurnir koma að þemanu úr ólíkum áttum. Hver og einn leiðbeinandi flytur klukkutíma fyrirlestur fyrir þátttakendur SW ásamt því að taka þátt í opnum umræðum og veita svo perósnulega ráðgjöf og hlustun.
Mánudagur 6. september, Sigríður Guðjónsdóttir
Sigríður Guðjónsdóttir útskrifaðist úr meistaranámi í hagnýtri félagssálfræði í University of Amsterdam 2019 og lauk viðbótardiplómu á meistarastigi í Umhverfis- og auðlindafræði í Háskóla Íslands nú vorið 2021. Hún brennur fyrir að skilja áhrif samfélagslegra þátta á mannlega hegðun og hvernig má nýta þann skilning við úrlausnir allt frá hversdagslegra til hnattrænna vandamála. Sigríður starfar við verkefni tengd hringrásarhagkerfinu, notendarannsóknum, umhverfisstjórnun og stefnumótun, þ.á.m. sem stofnandi stafrænu fataleigunnar SPJARA. Hún er einnig virk í starfi Ungra Umhverfissinna og situr sem trúnaðarfulltrúi í stjórn þeirra.
Þriðjudaginn 7. september verður opið samtal með vinum okkar frá Fab Lab á Ísafirði.
Miðvikudagur 8. september, Gunnar Ólafsson
Gunnar er stofnandi Djúpsins, frumkvöðlaskjóls á Bolungarvík. Djúpið er félagasamtök rekið án gróða sem býður upp á faglega þekkingu og ráðgjöf þegar kemur að hönnun, framleiðslu, markaðssetningu og fjármálum nýsköpunarfyrirtækja. Gunnar vinnur þó fyrst og fremst að samfélagsverkefnum með áherslu sjálfbærari landsbyggð með heimsmarkmiðin að leiðarljósi. Gunnar stýrir verkefninu Fræ til framtíðar sem er þróunarverkefni innan menntavísinda, hann vinnur að alþjóðlegu samstarfi og sinnir ráðgjöf varðandi ræktun á þörungum og fullnýtingar verkefnum í matvælum, meðal annars með Matvælastofnun Sameinuðu Þjóðanna. Gunnar er sérfræðingur þegar kemur að áskorunum tengdum sjálfbærni og nýsköpun á landsbyggðinni og í að finna mögulegar úrlausnir í þeim áskorunum.
Fimmtudagur 9. september, Uta Reichardt
Uta sinnir þverfaglegum rannsóknum ásamt því að vera leiðbeinandi og kennari í Reykjavík. Aðaláhersla og áhugasvið Utu snýr að samlegðaráhrifum sem koma út úr samtali milli lista og vísinda. Í núverandi starfi hennar skoðar Uta sjálfbæra þróun með því að draga úr hættu á hamförum, með áherslu á hlutverk listar og hönnunar varðandi viðbúnaðaðgerðir og lausnir tengdar náttúruhamförum. Uta er stofnandi Out of Sync, samstarf fyrir þverfaglegt list- og vísindastarf og Disaster Studios, www.disasterstudios.website, vettvang sem sameinar áhættustjórnun og hönnun og leggur áherslu á mikilvægi skapandi aðferða við að draga úr hættu á hamförum.
Föstudagur 10. september, Þórður Hans Baldursson
Þórður Hans lauk B.Sc. gráðu í hugbúnaðarverkfræði árið 2016. Síðan þá hefur hann komið að fjölda verkefna sem samtvinna tækni, myndlist og hönnun. Þar ber helst að nefna prentverkamarkaðinn Postprent.is, Slettireku - opnunarverk Vetrarhátíðar í Reykjavík og sýninguna Tól til samlífis sem stóð yfir í Ásmundarsal síðastliðið sumar. Undanfarin tvö ár hefur hann lagt stund á myndlistarám við Konunglegu listaakademíuna í Haag í þverfaglegri og tilraunakenndri deild sem ber nafnið ArtScience. Hægt er að skoða verk eftir Þórð á https://www.studio.thordurhans.com.
Ekki má gleyma því að megin áhersla nýsköpunarhemilsins er að leyfa hugmyndum að blómstra í streitufríu umhverfi, eiga samtal við ólíka einstaklinga og læra af hvoru öðru. Hemillinn miðar að því að veita fólki innblástur, bæði með samtali við mismunandi fagaðila og fallega umhverfinu sem finna má á Þingeyri. Við hlökkum til septembers og hvetjum frumkvöðla til þess að sækja um fyrir 31. ágúst.